30.12.2011 | 09:48
Falleg taka sem gengur seint úr minni
Þetta var fyrsta sumarið sem maðkur var bannaður í Breiðdalsánni og hafði ég ásamt fleirum verið að gæta erlenda veiðimenn fyrir Þröst. Nú var "minn maður" farinn og þar sem ég beið nú eftir næsta holli og hafði ekkert að gera mátti ég fara og veiða mér til dundurs.
Ég átti frá Gljúfrið og upp eftir en ekki hafði náðst fiskur á flugu úr Gljúfrastrengnum eftir að maðka bannið var sett á þetta sumarið. Gljúfrastrengur var frábær "maðka staður" og var rennt frá klettunum að sunnan verðu og beinnt niður á steininn. Meiri segja ég gat sett í maðka fisk þarna og var þá mikið sagt.
Mér hafði dottið í hug að reyna að fara að Norðan verðu og kasta þaðan yfir strenginn og á steininn. Þetta var langt kast en ég mátti til með að reyna og kvaddi félagana með því að segjast ætla að ná flugu-fiski þarna.
Kvöldið áður höfðum við Frímann verið að leika okkur að hnýta Sun-ray Shadow með glimmer búk og var þetta svaka fluga sem ætti að virka í sólinni í Breiðdalnum.
Þeir sem veitt hafa í Breiðdalnum þekkja þennan fallega stað sem er með fallegri og meir krefjandi veiðistöðum sem menn koma að. Stríður sléttur straumurinn rennur þarna inní gljúfrið sem áin í áranna rás hefur grafið sig gegn um. Svo virðist sem fiskur stoppi þarna alltaf á leið sinni upp ánna eftir að hafa rólað sér í gegnum lygnt gljúfrið. Mjög hált er þarna útí og stórgrýti og erfitt að fóta sig jafnvel "á nöglum". Ég hef ég nokkrum sinnum síðan þetta skeði stungist á kaf þarna.
Ég er nú búinn að koma mér fyrir og byrja að kasta með einhendunni og lengi smám saman í svo flugan fer að nálgast að lenda ofan við steininn. Ég næ nú góðu kasti og augnabliki eftir að ég er búin að vippa og laga línuna sem straumurinn er búinn að hrifsa hreinsar fallegur 8 punda hængur sig uppúr straumnum og sé ég tignarlegann fiskinn allan með Sun-ray fluguna hangandi í kjaftvikinu. Þetta augnablik og önnur lík er það sem gerir Laxveiðina svo heillandi og spennandi að menn fara aftur og aftur til að upplifa þessa fegurð og spennu. Þegar maður upplifir svona töku er maður eins og lamaður augnablik og myndin af þessum fisk er enn greipt eins og málverk í huga mér og veitir mér alltaf sömu ánægju.
Eftir leikurinn var síðan bara ég eða fiskurinn og skipti í raun ekki máli. Fyrir mér er takan og það að fá fiskinn til að bregðast við það sem gerir veiðina það sem hún er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg saga Ólafur. Hef einu sinni komið í Breiðdalsána með syni mínum. Gerði ekki miklar rósir, en þetta er frábærlega falleg á og allt umhverfi.
Jón Atli Kristjánsson, 30.12.2011 kl. 16:36
Já Jón einstök fegurð og barnvæn á. Við fjölskyldan áttum margar ánægjustundir í Breiðdalnum með góðu fólki og þótt ekki væri alltaf fiskur hafði maður alltaf eitthvað til dundurs.
Ólafur Örn Jónsson, 30.12.2011 kl. 21:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.