6.3.2014 | 09:29
Ónýti flokkurinn....
Sjálfstæðisflokkurinn óx upp til að verða vörður og leiðandi afl frelsis og framfara á Íslandi. Flokkur sem barðist gegn spillingu og einokunar tilburðum bændamafíunnar og SÍS veldisins.
Flokkurinn var sterk fjöldahreyfing þeirra sem vildu ekki hefta frelsi einstaklingsins og með Moggann (þá blað allra landsmanna) að baki sér náðist t.d. að brjóta niður hreðjatök EINOKUNAR sem MS hafði á Reykvíkingum.
Í kjölfar útfærslu Landhelginnar í 200 sjómílur þegar við byrjuðum að skuttogaravæða flotann og landið allt þurfti að bregðast við ábyrgðinni á stjórnun fiskveiðanna við landið þá var það Sjálfstæðisráðherrann Matthías Bjarnason sem kom með Sóknarmarkið. Fiskveiðikerfið þar sem allir sátu við sama borð og þrátt fyrir fáránlega fjölgun skipa (i boði "vinagreiða" Framsóknarflokksins) uxu stofnarnir og vel reknar útgerðir og vinnslur blómstruðu.
En því miður varð mikil breyting á þegar ungir menn sem í gegnum fjölskyldu og vinatengsl komust til æðstu metorða í flokknum. Foringi þessa hóps trúðurinn Davíð Oddsson varð borgarstjóraefni flokksins og síðan borgarstjóri í Reykjavík þegar hann sópaði vinstrimönnum úr meirihlutanum.
Með háði og frösum varð þessi trúður vinsæll meðal borgarbúa. Í fyrstu virtist allt með felldu en ekki leið á löngu að trúðurinn sýndi sitt rétta andlit. Eitthvað hafði þróun mála í kringum ört vaxandi útgerðarfyrirtæki borgarinnar farið í taugarnar á nýja borgarstjóranum og þegar illa rekið og illa mannað fjölskyldufyrirtæki í eigu Flokksmanna átti ekki fyrir olíu lengur fór Davíð í það að öllum forspurðum að sameina gjaldþrota Ísbjörninn við eitt framsæknasta og best rekna útgerðarfyrirtæki landsins á þessum tíma BÚR.
Þeir sem urðu vitni að þessari spilling og skildu hvað Borgarstjórinn ungi hafði gert með þessu blöskraði og hafði aldrei neinn stjórnmálamaður komist upp með svona augljósa spillingu áður. Síðan var málinu bjargað og fíflagangurinn þannig falinn með sölu á nýja sameinaða fyrirtækinu og úr varð stórfyrirtækið Grandi sem verið hefur stolt Reykvíkinga allt síðan.
En Reykvikningar sátu eftir með sárt ennið horfandi á eftir hluta söluverðsins renna í hendur Ísbjarnabörnunum. Og sjá á eftir þessu vel rekna risafyrirtæki sem var komið yfir fjárfestingar í nýjum skipum og fullkomnustu karfa verksmiðju í heimi. Það má fullyrða að viðskiptavild fyrirtækisins og væntingar voru ekki inní söluverðinu.
En stóri skaðinn var örlagaríkur fyrir þjóðina þarna breyttist þetta vígi Sjálfstæðisflokkurinn úr verði frelsis og framfara í eitt mesta afturhalds batterí landsins við hlið okkar erkióvina Framsóknarmanna.
Við fylgdumst með stærsta sigri flokksins 1991 þar sem okkar stóra stefnu mál að MOKA FRAMSÓKNARFLÓRINN var okkar helsta kosningamál en þurftum að horfa á eftir Flokknum renna á eftir Formanninum sem dró þau með sér ofaní Haughús Framsóknar i fangið á Halldóri Ásgrímssyni spilltasta stjórnmálamanni landsins fyrr og síðar.
Á verkunum skulu þið þekkja þá. Enginn getur sagt að á síðustu 23 árum hafi vottað fyrir heiðarlegri stefnu OKKAR Sjálfstæðismanna. Hún er horfin og helst að finna í öðrum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn í dag er handónýtur flokkur Framsóknarmanna sem ekkert erindi áttu í gamalt vígi OKKAR frjálslyndra hægrimanna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.3.2014 kl. 09:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.