1.2.2012 | 09:34
HÖFÐAHYLUR
Nú sem endranær þegar birta tekur leitar hugurinn til veiðistaða sem heillað hafa gegnum tíðina. Laxá í Aðaldal er á sem hefur magnaða nærveru og hef ég verið svo heppinn að eyða tíma þar mörg liðin sumur og hóf ég reyndar mína Laxveiði þar fyrir hundrað árum.
Fyrir nokkrum árum var ég og Soffía við veiðar á Núpa svæðinu í Júlý ásamt Konna bróðir og veiddum við sitthvora stöngina. Við áttum brúnna og eftir að Soffía landaði einum af sínum alræmdu urriðum á Fossbreiðunni vestan uppí straumnum setti ég í lax í litla strengnum sem er þarna neðar. Þetta var sennilega 8 punda lax og hafði hann tekið með heljar stökki eftir að hafa komið skautandi á eftir flugunni Laxá Blá # 10 en ekki hitt. Kom upp "öfugumegin" á móti flugunni og greip hana.
Meira var af laxi þarna en við ákváðum að hvíla strenginn og eftir að hafa spjallað við Konna sem búinn var að landa laxi á Fossbreiðunni austan verðu fórum við upp fyrir hólinn á leið okkar að stóralaxa stað Jakob Hafsteins Höfðahyl. þetta var fyrsta skipti sem við hjónin veiddum Núpa svæðið og var nokkur spenningur að koma á þennan rómaða veiðistað. Við rérum yfir vel fyrir ofan brotið og komum að steininum sem reistur hefur verið til minningar um Jakob og laxinn stóra.
Ekki nennti Soffía að byrja en kom sér vel fyrir í móanum við steininn og fékk sér rettu á meðan ég skipti um taum eftir laxinn niður frá og setti nýjan 28 punda taum á sem reynst hafði mér vel. Mikil misstök að hundsa ráðleggingar "heimamanna" sem fullyrða að aldrei eigi að kasta á "Drottninguna" með minna en 50 punda taum!
Þegar ég kem út að strengnum og horfi yfir þennan magnaða spegil er ég ekki alveg klár á hvernig kasta eigi til að láta fara vel á flugunni. Eftir að vera búinn að þreifa fyrir mér með nokkrum köstum kemst ég að þeirri niðurstöðu að ég sé of neðarlega og veð ég nokkuð upp með dýpinu fyrir framan spegilinn. Þar finn ég lítinn stall sem stendur út í dýpið og horfi ég nú skáhalt niður yfir þennan fallega spegil sem endar í gáru við fjær landið.
Ég er með tvíhenduna Hampiðjunaut og Laxá Blá # 10 dinglar á endanum. Nú kasta ég út á spegilinn og sé að mjög vel fer á línunni og flugan hreyfist með jöfnum hraða rétt undir yfirborðinu. Ég lengi lítillega í hverju kasti og býst alltaf við að "sá stóri" birtist og rífi til sín fluguna.
Köstin eru nú farin að nálgast gáruna við hitt landið og þarna í kyrrðinni og heillandi þunga árinnar sem ég elska svo mikið birtist allt í einu ljótur, stór og grimmur haus upp úr speglinum slétta og á örskammri stundu er tröllið búið að hrifsa fluguna og tekur sveig með hausinn og bakið uppúr niður spegilinn og rífur út af hjólinu svo syngur í. Ekki kafar drekinn fyrr en komin á leið út í strauminn aftur á bakaleið yfir ánna þar sem hann fer upp móti straumnum og kafar síðan ofaní dýpið fyrir framan spegilinn og ALLT STOPP!
Venjulega er ég nokkuð rólegur í veiði en eftir þessa sýn og átökin nötruðu hnéin. Soffía hrópar á bakkanum og sá allt sem skeði. Ég reyndi að róa mig hafði áður lent í trölli niður á Breiðeyri og vildi nú reyna að gera allt rétt. Ég reyndi að slaka á. Herti lítilega á bremsunni og fór að taka heldur þyngra á fiskinum. Ég var kominn með þéttings átak á stöngina án þess að nokkuð skeði og ætlaði ég að halda því og passa að vera fyrir ofan fiskinn reyðubúinn langri viðureign og vildi að slíið rynni til fisksins en safnaðist ekki á línuna.
Þá allt í einu er eins og stönginni sé barið í stein og nokkur þung högg og síðan allt kyrrt nokkrar sekúndur og aftur "barið í stöngina" og þung högg og BANG slítur tauminn.
Ekki fór á milli mála að kvikindið hafði nuddað tauminn utan í hraun egg eða stein í dýpisbakkanum þarna við fætur mína. Taumurinn var í sundur um metir frá flugunni og illa farið fyrir ofan slitið.
Aldrei veit ég hvort ég hefði náð að landa þessum rosa fiski sem ekki er hægt að giska á hve þungur var en ef ég hefði passað mig með tauminn hefði ég sennilega fengið lengri baráttu og geta átt von á ævintýrum. Ekki sáum við fossbúan aftur þótt við eyddum á hann nokkrum flugum en hann er greiptur í hugan þar sem birtist annað slagið mér til ánægju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.