LÍÚ og greinin góða frá 1995!

1995 byrtis þessi grein í Mogganum og varð til þess að hárin risu á hnakka 
Þorsteins Má sem ásamt nokkrum félögum sínum innan LÍÚ var að plotta gegn 
þjóðinni í þeim tilgangi að "stela" kvótanum frá þjóðinni. Markmið þeirra var
að þagga niður alla umræðu gegn kvótakerfinu hvað sem það kostaði og var 
þessum kónum ekkert heilagt. 
Laugardaginn 1. apríl, 1995 - Aðsent efni

Kvótakerfið hefur ekki, að mati Ólafs Arnar Jónssonar , skilað
Norðursjávarþjóðum neinu í áralangri baráttu fyrir uppbyggingu fiskistofna.

Vanskapnaður, sem er svo vitlaus, að ekki er hægt að hætta þó í óefni sé
komið?

Það er fyrst nú eftir tíu ár, sem menn eru almennt að byrja að átta sig á
eðli þeirrar ófreskju sem kvótakerfið er. Ófreskju, sem í reynd hefur í
stað uppbyggingar eytt þeim fiskstofnum, sem vernda átti. Fyrir tíu árum,
þegar kvótakerfinu var þröngvað upp á þjóðina eftir markvissa uppbyggingu
skrapdagakerfisins með stoppdögum og tegundastýringu, upphófst sú
skálmöld, sem varað hefur síðan. Höfundar og fylgjendur kvótans áttu
fyrsta leik, í stað þess að sækja "drasl"-fisk suður fyrir land á vetrum,
eins og þeir neyddust til í gamla kerfinu, var nú hægt að sópa upp
afrakstri skyndilokana á mjög þægilegan hátt rétt við "bæjardyrnar". Enda
stóð ekki á kvótakaupum norður fyrstu árin og voru menn lofaðir fyrir
dugnað og framsýni.

En bullið gat ekki gengið. Þorskstofninn hrundi og stórfelldur
niðurskurður á þorskkvóta ásamt dulbúinni sóknarstýringu tók við. Miklar
takmarkanir urðu til þess að brjálæðisleg sókn í aðra stofna hófst. Komnar
voru aðrar áherslur með nýrri tækni og nýjum skipum. Hafin var heilsárs
sókn í grálúðu, sem áður hafði aðallega staðið á vorin. Gömlu slóðirnar
þurrkuðust upp fljótlega og var þá farið dýpra en allt bar að sama brunni
afli minnkaði ár frá ári og ef mér skjátlast ekki, sem ég þó vona, er
stofninn mjög illa farinn.

Síðustu ævintýri og afglöp, sem af kvótavitleysunni hljótast, eru nú orðin
þeim mönnum ljós, sem þora og vilja ganga með opin augun. Hrygningarstofn
djúpkarfans í skerjadýpi hefur nánast hrunið á þeim þremur til fjórum
árum, sem þar hafa verið stundaðar gloríuveiðar. Gloríutroll eða
risaflottroll er ein stærsta bylting sem sést hefur á síðari árum og eiga
hönnuðirnir lof skilið. En því miður eru auðlindir hafsins ekki
ótakmarkaðar og á þetta risatroll ekkert erindi fyrir innan
landhelgismörkin og allra síst til karfaveiða, það er hrein rányrkja. Menn
hafa stungið höfðinu í sandinn og reynt að réttlæta þessar veiðar með
tilvist kvótakerfisins og virðast þessir menn loka augunum fyrir þeim
staðreyndum að hrun hefur orðið á stofninum í Skerjadýpi og sama er upp á
teningnum þar sem trollið hefur verið notað annars staðar í
landgrunnsköntunum.

Af hverju stöndum við nú tíu árum seinna með þessa harmsögu að baki? Við
upphaf kvótans misstum við stjórn á veiðunum. Í stað skynsamlegrar
uppbyggingar skrapdagakerfisins kom sefjun. Útgerðir með óveidda kvóta eru
eins og soltin dýr og ekki að spyrja sé kvótinn aðkeyptur. Sögur um einnar
sortar skip, sem henda óæskilegum tegundum í sjóinn, gerast háværari með
hverju ári og hef ég heyrt nóg til að sannfærast um að sá ósómi er
stundaður í ríkara mæli en margir ætla. Eðli kvótans sem stjórntækis til
stjórnar veiðum á mörgum botntegundum samtímis, er það að eyra engu þangað
til kvótanum er náð, burt séð frá því ástandi, sem sá og sá fiskstofn er í
hverju sinni. Þetta er það, sem við höfum séð gerast á miðunum undanfarin
ár, en vegna þröngsýni og hagsmunagræðgi, virðumst við ekki geta snúið af
þessari óheillabraut. Það má undrun sæta að það skuli nú vera orðið
hlutverk Sjálfstæðisflokksins að keyra áfram þetta kerfi. Við upphaf
fiskveiðistjórnunar var markmiðið að refsa skussanum og færa
sóknarheimildir í hendur þeirra, sem betur gerðu, en í staðinn er það
flokkur einkaframtaksins, sem hyglar þeim skræfum, sem ekki þora að standa
jafnfætis öðrum hvað varðar sóknarfæri. Hyglar útgerðum, sem þrátt fyrir
einkarétt að auðlind þjóðarinnar í tíu ár þurfa nú í öllu "hagræðinu" að
fá heimild til að veðsetja óveiddan fisk "þjóðarinnar" í sjónum.

Það var vart á bullið bætandi. Ekki er nóg í stéttlausa landinu að nú mæti
tvö börn saman í skólann í fyrsta sinn, annað með sjálft sig og hæfileika
sína en hitt með lögskipaðan arf frá ríkinu upp á t.d. 500 eða jafnvel
1.000 millj. Var einhver að segja af sér ráðherradómi fyrir siðleysi? Vita
menn á alþingi yfirleitt hvað siðleysi er?

Það má breyta þessu ástandi ef menn vilja og þrátt fyrir ógnvænlegar
yfirlýsingar Halldórs Ásgímssonar o.fl. um að engin leið önnur en þessi
ósómi sé fær þá sýndu aflaárin '83 og '84 hversu vel hafði tekist til við
uppbyggingu í skrapdagakerfinu, og ætti að vera ljóst hversu miklu betri
stoppákvæðin yrðu nú, þegar við höfum öðlast reynslu í utanlögsöguveiðum,
og víst má vera létt verk að breyta stoppákvæðunum kerfisins þannig að
stoppin nýttust skipunum sem best til þeirra veiða. Mín skoðun er sú að,
ef passað yrði vel upp á smáfisk og gegndarlaust seiðadráp rækjuskipa
afnumið, ætti ástand fiskstofna að batna það mikið að eftir 35 ár mætti
beita hér þeim flota, sem við nú eigum, innan landhelginnar með eðlilegri
sókn. Væri farin sú braut gætum við kvatt þær illvígu deilur, sem farið
hafa vaxandi í tíð kvótakerfisins, því á sóknarmarki sitja allir við sama
borð hvað sóknarfæri varðar og stefnu framsóknarmanna um að sumir séu
jafnari en aðrir í þessu landi yrði að endingu hafnað. Einhverjir hafa
haft uppi þau rök, að bæta þyrfti mönnum kvótamissinn, ef annað kerfi væri
tekið upp. Í því sambandi vil ég minna menn á söguna af Einari
Benediktsyni er hann seldi norðurljósin. Skildist mér á sögu þeirri að
kaupandinn hefði goldið sinna eigin gerða.

Nú liggur á borði sjávarútvegsráðherra skýrsla um tillögur til úrræða gegn
útkasti fisks og löndun framhjá vigt frá sambandsnefnd um bætta umgengni
um auðlindir sjávar. Öll vandamálin, sem upp koma í skýrslu þessari, mætti
leysa með því að taka hér upp skrapdagakerfi eða sóknarmark í einhverri
mynd. Að öðrum kosti er verið að innleiða hér lögregluaðgerðir til þess að
viðhalda kvótakerfi, kerfi sem rústað hefur þorskveiðum Kanadamanna og
ekki hefur skilað Norðursjávarþjóðum neinu í áralangri baráttu við
uppbyggingu fiskstofna í Norðursjó. Það verður að spyrja það fólk, sem á
alþingi situr, og af einhverjum annarlegum hvötum styður þennan óskapnað,
hvort það hefur skoðað endinn á því bulli, sem búið er að troðast áfram
með í tíu ár, til stórskaða fyrir íslenskt þjóðfélag og þjóðfélagsmynd.
Framtíðarsýnin í viðjum kvótans getur aðeins verið áframhaldandi
reiðileysi. Öll þau vandkvæði, sem við sjáum í dag eru þess eðlis, að þau
eiga eftir að aukast og þyngjast í vöfum svo að frekari dráttur á afmámi
kvótans er eingöngu til óþurftar fyrir þjóðina og ama okkur sem höfum
þurft að stunda atvinnu okkar í þessu fáránlega afskræmi af
fiskveiðistjórnun. Aðgerðin er ekki flóknari en það, hvað sem hver segir,
"að afnema hvótann og afskrifa tíu ár í fiskveiðistjórnun", og byrja uppá
nýtt þar sem frá var horfið fyrir tíu árum. Að sjálfsögðu yrðu sveiflur í
veiði það eru sveiflur í náttúrunni hagfræðin verður bara að lifa við þær
eins og við hinir. Minni fiskur eitt árið og meiri það næsta er betra en
lítill fiskur alltaf eins og við á suðvesturhorninu og fleiri horfum uppá
á næstu árum, með nú ríkjandi kerfi. Ráði "nútíma rekstrarstjórar" ekki
við sveiflurnar gætu þeir ráðið sig í að telja hænur eða eitthvað
viðráðanlegra og látið þá, sem taka þjóðarhag fram yfir
stundarhagsmunagæslu um að sveiflast í sjávarútvegi.

Höfundur er skipstjóri á togaranum Viðey.

Ólafur Örn Jónsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband